Hugtakið eignastýring

Hugtakið eignastýring er í daglegu tali oft notað tiltölulega frjálslega og nær í því samhengi jafnvel yfir flest þau verkefni sem rekstrarfélög taka að sér. Skilgreining laga um verðbréfaviðskipti á eignastýringu er þó mun þrengri en skv. þeim þýðir eignastýring stjórnun verðbréfasafns í samræmi við fjárfestingarstefnu sem er fyrirfram ákveðin af viðskiptavini.

Hvað þjónustu Summu Rekstrarfélags hf. áhrærir er átt við eignastýringu skv. lagalegu skilgreiningunni. Af þessu leiðir að áður en Summa Rekstrarfélag hf. getur tekið að sér eignastýringu fyrir viðskiptavin er nauðsynlegt að fyrir liggi fjárfestingarstefna sem er fyrirfram ákveðin af viðskiptavini. Eignastýring er frábrugðin sjóðastýringu að því leyti að fjárfest er beint í verðbréfum á markaði fyrir hönd viðskiptavinar.

Sérgreind stýring

Summa Rekstrarfélag hf. sinnir einkum þeirri tegund eignastýringar sem oft er kölluð sérgreind stýring (e. segregated account). Sérgreind stýring ætluð fagfjárfestum með stór eignasöfn þar sem fjárfestingarstefna er sérsniðin að þörfum sérhvers viðskiptavinar. Fjárfestingastefna getur t.a.m. tekið mið af skuldbindingum í tilfelli lífeyrissjóða eða öðrum viðmiðum og verið sniðin að sértækum markmiðum varðandi áhættu.