Lagalegar forsendur viðskipta

Til að Summa Rekstrarfélag hf. megi lögum samkvæmt hefja viðskipti við nýjan viðskiptavin ber félaginu að framkvæma eftirtalin skref.

  1. Framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptavini
  2. Flokka viðskiptavin sem almennan fjárfesti, fagfjárfesti eða viðurkenndan gagnaðila
  3. Meta hæfi viðskiptavinar til að eiga aðild að fyrirhuguðum viðskiptum

Fyrsta skrefið er hluti af aðgerðum félagsins gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka en seinni tvö eru hluti af reglum um fjárfestavernd.

Áreiðanleikakönnun

Samkvæmt lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lögum nr.  64/2019 um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna er fjármálafyrirtækjum skylt að kanna áreiðanleika viðskiptavina sinna við upphaf nýs viðskiptasambands.

Nánar er fjallað um framkvæmd slíkrar áreiðanleikakönnunar á undirsíðu.

Fjárfestavernd – MiFID

Ný lög um verðbréfaviðskipti tóku gildi 1. nóvember 2007 og með þeim var innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópusambandsins um markaði fyrir fjármálagerninga (Markets in Financial Instruments Directive, skammstafað MiFID).

Tilskipun þessi hefur í för með sér umfangsmiklar breytingar á reglum um verðbréfaviðskipti og samskipti fjármálafyrirtækja og viðskiptavina þeirra. Tilgangur tilskipunarinnar er að auka vernd fjárfesta og tryggja að þeir eigi einungis í viðskiptum með fjármálagerninga sem hæfa þekkingu þeirra og reynslu. Einnig er tilskipuninni ætlað að auka gagnsæi í viðskiptum við fjármálafyrirtæki og stuðla að virkari samkeppni þeirra í millum.

Tilskipunin kveður á um skipulega söfnun upplýsinga, m.a. til að flokka viðskiptavini eftir reynslu þeirra og þekkingu ásamt því að meta hæfi þeirra til að stunda tiltekin viðskipti. Nánar er fjallað um kröfur MiFID hvað varðar flokkun og hæfismat viðskiptavina á undirsíðum og FME hefur einnig gefið út upplýsingabækling um MiFID.

Framkvæmd

Framkvæmd áreiðanleikakönnunar, flokkunar viðskiptavina og hæfismats viðskiptavina er unnin af starfsmönnum Summu Rekstrarfélags hf.

Starfsmenn félagsins gefa nánari upplýsingar um framkvæmdina en einnig er hægt að leita upplýsinga hjá summa[hjá]summa.is.

Samningur um viðskipti

Til viðbótar við ofangreindar lagalegar forsendur viðskipta verða gerðir sérstakir samningar milli Summu Rekstrarfélags hf. og viðskiptavinar sem tilgreina nánar eðli og umfang viðskiptanna í hverju tilfelli.